My Life in WordsHér birti ég mínar hugsanir (og stundum annarra)
|
My Life in WordsHér birti ég mínar hugsanir (og stundum annarra)
|
![]() Ákvað að endurbirta þessa hugleiðingu mína frá 19. júní 2012. Ég hef unnið í sjálfri mér, skömminni og sektarkenndinni sem öllu þessu fylgdi. Ég vildi að ég ætti engar nýlegar sögur um ofbeldi gegn mér en því miður er það ekki raunin. Ég setti ekki þessa færslu inn til að fá samúð og ooo aumingja hún, heldur til þess að vekja athygli á því að allt í kringum okkur eru konur (og karlar) sem hafa orðið fyrir ofbeldi. Sumir einu sinni aðrir oftar. Það sem svona ofbeldi gerir sálinni er að það brýtur hana. Ég er 44 ára í dag og er enn að vinna úr þeim afleiðingum sem ofbeldi karla hefur haft á mig, vantraustið og óttinn fer minnkandi sem betur fer en þetta er þrotlaus vinna. Hér með skila ég skömminni enn og aftur til þeirra sem sköðuðu mig. Ég bar ekki ábyrgð á því og átti það ekki skilið. Hvorki þá né síðar. "Ég var nýbyrjuð i gaggó (7. bekk á þeim tíma) og var skotin í strák og á leið heim frá honum um miðnætti á laugardagskvöldi. Við höfðum verið nokkur að horfa á hryllingsmynd og þegar ég var að labba heim yfir kirkjuholtið þá var ég smeyk. Ég sá móta fyrir manni upp við kirkjuna og byrjaði að ímynda mér ýmis "scenarios" og hraðaði mér því til að komast í ljós við aðalgötuna. Þegar þangað var komið gekk að mér drengur sem ég kannaðist við og var 2 árum eldri úr hinum hluta bæjarins. Ég get ekki lýst þakklætinu sem ég upplifði og örygginu að hitta hann. Hann bauðst til að fylgja mér heim sem ég þáði því ég var enn smeyk. Við gengum í hvarf fyrir neðan götuna, og fyrir utan sundlaugina ákvað hann að kyssa mig. Ég vildi ekki kyssa hann því ég var jú skotin í öðrum strák og sagði því nei. Við það reiddist hann og tók mig hálstaki og hélt fast þar til ég missti meðvitund. Um hálftíma síðar rankaði ég við mér liggjandi á bílastæðinu og hann sat þarna hliðina á mér grátandi með gleraugun mín í höndunum. Ég fann til með honum, hann hafði "óvart" ráðist á mig og sá eftir því. Ég tók gleraugun mín og gekk heim hágrátandi í losti. Ég kærði hann ekki og sagði foreldrum mínum (sem ekki voru heima þegar ég kom) ekki frá atvikinu fyrr en nokkrum árum seinna. Ég var hrædd um að þau myndu banna mér að fara út á kvöldin. Ég var nýorðin 16 ára, hafði komist inn í Hollywood og var pínu drukkin, nýhætt með kærasta og hitti einhvern strák sem tók mig með sér heim. Ég vildi ekkert sofa hjá honum en ég fór samt heim með honum og sofnaði. Þegar ég vaknaði sagði hann mér að hann hefði fengið að setja hann aðeins inn. Ég hafði ekkert um það að segja. Þetta var nauðgun. Ég var 16 ára á útihátíð, pínu drukkin og var í partýi inn í tjaldi. Þá reiddist eigandi tjaldsins og vildi ekki að ég væri þar inni og henti mér út, hann braut á mér þumalfingurinn við það og ég gekk um og leitaði að sjúkratjaldinu, ein, rakst á strák sem vildi hjálpa mér að finna tjaldið en á leið okkar yfir smá skóglendi ákvað hann að vilja kyssa mig og eitthvað fleira ég barðist um og slapp sem betur fer. En sjokkið var nokkuð. Ég var 16 ára niður í bæ rétt fyrir jólin aftur talsvert í því og var að leita að kærastanum mínum. Spurði kunningja hans um hann en þeim kunningja fannst ég ljót svo hann lamdi mig, ég lá í götunni með skurð á auganu og viðbeinsbrotin. Ég var 19 ára niður í bæ og hitti kunningja sem ég hafði ekki séð lengi, hann hafði verið vinur mágs míns sem var dáinn og við rifjuðum upp sögur af honum og fórum saman heim, sem vinir hélt ég. Ég ætlaði bara að fá að gista. Ég rumskaði við það að hann var að reyna að fara inn í mig, ég náði að stoppa hann. Viku seinna fór á húð og hitt og fékk að vita að ég var með Klamydíu. Ég var ekki alltaf drukkin og í helmingi tilfellanna hér að ofan þekkti ég gerandann og treysti. Í tilefni kvenréttindadagsins og kjark margra kvenna til að skrifa sínar sögur ákvað ég að deila þessu hér. Sú mynd sem hefur verið dregin upp af Efra Breiðholtinu síðustu daga í fjölmiðlum hefur vakið hjá mér sorgartilfinningu. Mig langar að segja ykkur sögu af mér.
Ég ólst upp í Seljahvefi og var í Seljaskóla, það þótti dáldið fínna hverfi en Fellahverfi í þá daga og eflaust eru þar enn í dag efnameira fólk en í Fellahverfinu. Þegar ég var 19 ára eignaðist ég mitt fyrsta barn og ég sótti um hjá verkamannabústöðum um íbúð og þá í Grafarvoginum. Þegar kom að úthlutun tveimur árum sienna, árið 1994 var sonur minn orðin tveggja ára og mér var úthlutað íbúð í Fellahverfi. Ég fékk smá sjokk því í Fellahverfi hafði ég aldrei geta hugsað mér að búa en gat ekki neitað því heimili sem mér hafði verið gefinn kostur á að fá fyrir mig og barnið mitt. Ég og sonur minn gátum eignast öruggt heimili fyrir okkur og þurftum ekki að búa við þá óvissu að flakka á milli staða eins og er hjá mörgum sem eru á leigumarkaðinum í dag. Á þessum tíma vann ég á Endurhæfingadeild fyrir aldraða, var í láglaunastarfi til margra ára og var mikið ein með drenginn minn. Ég verð ævinlega þakklát „verkó“ fyrir að hafa verið til á þessum tíma og gera þeim kleift sem unnu láglaunastörf að eignast þak yfir höfuðið. Möðrufell 9 Í ganginum mínum voru 10 íbúðir, við bjuggum á annari hæð með fallegt útsýni yfir Elliðarárdalinn, hesthúsin í Víðidal, Esjuna, Úlfarsfell, Bláfjöll og lengi mætti telja, nýtt málverk á hverjum degi eftir árstíðum. Við eldhúsgluggann átti ég ófáar stundir þar sem ég naut þess að hafa útsýnið eða hafa einhvern í kaffispjalli við eldhúsgluggann, fylgjast með hver var að koma eða fara. Í byrjun voru allir íbúar í ganginum sem höfðu fengið úthlutað hjá Verkamannabústöðum. Nágrannar mínir voru flestir einstæðar mæður ef mig minnir rétt þá voru einstæðingar í átta íbúðum og pör í tveimur. Eldra fólk bjó í ganginum sem reyndust okkur vel, voru eins og foreldrar og amma og afi barna okkar, þar var maður alltaf velkomin í heimsókn og kaffispjall, það var notalegt að eiga þau að. Hjá okkur einstæðu mæðrunum myndaðist mikill vinátta sem hefur haldist alla tíð, við studdum hvor aðra og vorum eins og fjölskylda, skiptust á að bjóða hvor annarri í mat og til þeirra gat maður alltaf leitað bæði í gleði og sorg. Ég upplifði mig aldrei eina þegar ég bjó í Möðrufelli 9 þó ég hafi stundum fundið fyrir því að eiga ekki alltaf pening og þurfa að fara vel með hann þegar ég var ein. Ég var lánsöm að geta leyft drengnum mínum að vera í íþróttum hann var meðal annars í Leikni að æfa fótbolta ásamt því að prófa aðrar íþróttagreinar. Þþar hafði hann stuðning beggja foreldra sem er víst ekki alltaf sjálfsagt hjá öllum. Þegar Verkamannbústaðir hættu var hægt að selja íbúðirnar á frjálsum markaði og höfðu Félagsbústaðir forgangsrétt á að kaupa íbúðirnar og keyptu þeir tvær tveggja herbergja íbúðir í ganginum okkar. Þeim var úthlutað til öryrkja sem létu lítið fyrir sér fara og fundum við ekki fyrir ónæði af þeim, þó vissulega hafi maður heyrt að annarstaðar hafi óregla oft fylgt mörgum félagslegum íbúðum. Í Fellahverfi var mikið af félagslegum íbúðum og oft heilu gangarnir. Það var víst ekki alltaf gott að hópa öllum saman sem þurftu á félagslegri íbúð að halda, því var svo splittað upp og reynt að dreifa fólki í þeirri stöðu víðar og miðað við ekki fleiri en tvær íbúðir í stigagangi. Ég held satt best að segja að komi mikið betur út og þurfi að dreifa því ennþá víðar um hverfin en ekki láta álagið vera sem mest í einu hverfi eins og Fellahverfi. Þetta þarf að laga svo þetta hverfi hafi ekki alltaf þennan ljóta stimpill á sér eins og það hefur haft síðan það byggðist. Það er svo önnur saga hvort eða hvernig sé hægt að breyta því viðhorfi sem eitt sinn hefur myndast, en ég get sagt að stundum þegar ég var spurð hvar ég byggi þá reyndi ég að koma mér un.dan því að segja í Fellahverfinu heldur sagði í Breiðholtinu, og oftar en ekki þá var ég spurð hvar í Breiðholtinu? Þá neyddist ég til að segja í Fellunum sem ég stundum skammaðist mín fyrir að búa í vegna viðhorfs fólks og oftast vildi fólk fá að vita nánar um hvernig væri að búa þar en ég get sagt það að það var ekkert verra en annarsstaðar. Aðstæður fólks eru mismunandi og fátækt og félagsleg úrræði eru í nánast öllum póstnúmerum á landinu. Ég átti íbúðina mína í Möðrufellinu í 22 ár og flutti í Hafnafjörð í mars 2016 með manni mínum og tveimur sonum, okkur líkar bara vel hérna og margt gott sem Hafnafjörður hefur uppá að bjóða, þó mun ég alltaf sakna vinkvennanna sem ég hafði í Möðrufellinu. Helstu breytingarnar sem ég varð vör við á þessum árum í Breiðholtinu var innflytjenda straumurinn eins og fram hefur komið í fréttum og það er staðreynd, að það er orðið miklu hærra hlutfall af erlendum börnum þarna bæði í leikskólunum og skólum í 111 RVK en ég veit ekki með neðra Breiðholt og Seljahverfið. Það er mikið horft í hvernig útlendingar eiga að aðlagast okkur en þetta er líka spurning hvernig við eigum að aðlagast þeim, þar sem margt af þessu fólki talaði ekki tungumálið okkar né ensku. þarna er að miklu leiti að myndast nýtt samfélag innflytjenda á mörgum tungumálum og spurning hvernig samfélagið ætlar að taka á því að búa að þessu fólki sem hefur flutt til landsins og okkur Íslendingunum. Fjölskylduhjálp kom fyrir nokkrum árum uppí Efra Breiðholt og var mér stundum brugðið þegar ég keyrði þar fram hjá að sjá hvað biðröðin þar fyrir utan fór alltaf stækkandi með hverju árinu. Fólk stendur þar í hvaða veðri sem er að sækja um mataraðstoð og oft hefur mér verið hugsað til þess hvað neyðin er mikil hjá mörgum. Að eiga ekki fyrir mat er dapurleg tilhugsun og ekki síður að eiga ekki heimili hvar sem þú ert búsettur og það á ekki bara við Breiðholtið þar býr líka fólk sem er vel stætt. Mig langar að nefna nokkra góða kosti sem 111 Reykjavík hefur uppá að bjóða, í Efra Breiðholti er ein besta sundlaug sem ég veit um og þar var verið að bæta við World Class íþróttamiðstöð, frábært bókasafn er staðsett í Gerðubergi ásamt safni, tónlistarskóli, heilsugæslustöð, Fjölbrautaskólinn í Breiðholti, fótboltafélagið Leiknir og ÍR. Þar var allt gert upp fyrir nokkrum árum þannig að aðstaðan þar er til fyrirmyndar og svo eru frábærar gönguleiðir í fallegri náttúru við bæjardyrnar, Elliðaárdalurinn, og eflaust er hægt að nefna fleiri kosti en þá sem ég hef talið upp. Lengi lifi Breiðholtið og takk fyrir mig, ég á margar góðar minningar þaðan og ég veit um marga sem hafa alist þar upp sem hafa orðið þjóðþekktir, öðlast góða menntun og komið sér vel áfram í lífinu. Þessi saga er ekki byggð á neinum heimildum heldur einungis upplifun minni sem íbúa í Fellahverfi. Hafdís Ósk Karlsdóttir Nú er árið 2015 runnið upp með ótal tækifæri og skemmtilegheit í kortunum. Það gerðist ýmislegt markvert á árinu sem er að líða og mér finnst gaman að líta yfir farinn veg. Merkilegast var auðvitað fæðing hinnar undursamlegu Ásu Hlínar sem kom á óvart með að fæðast á settum degi 4. maí sl. Það fylgja því auðvitað áskoranir að eignast barn sérstaklega á "gamals" aldri og mikil ábyrgð en gleðin sem hún færir öllum með fallega brosinu sínu er svo mikil og ég hlakka endalaust til að fylgjast með henni vaxa og dafna eins og ég hef notið þess að fylgjast með eldri systkinum hennar. Unnur Helga tók sig til og lauk "loksins" stúdentsprófi frá FB þar sem hún lagði áherslu á rýmishönnun og hönnun ýmsa, flutti síðan að heiman í annað sinn og hefur varið tíma sínum austur á Klaustri við störf í Systrakaffi og Skaftárskála. Hún er auðvitað orðin fullorðin þessa elska og ég er endalaust stolt af henni. Hún stefnir reyndar á að flytja aftur í bæinn á árinu og inn til mömmu sinnar í einhvern tíma í það minnsta. Óðinn Harri hefur haldið áfram að hækka og kyssir mömmu sína á kollinn reglulega (þegar hann lítur upp úr tölvunni), hann er nú á síðasti ári í grunnskóla og fer því í framhaldsskóla næsta haust. Hann vann í Vinnuskóla Reykjavíkurborgar í sumar og voru því báðir foreldrarnir og sonurinn á launaskrá borgarinnar um tíma. Hann ákvað í haust að taka sér frí frá handboltanum sem hann hefur spilað í 7 ár. Hann er ofboðslega efnilegur markmaður og mér finnst það synd en hann á eftir að finna út úr því sjálfur enda hans líf :D Hann stóð sig bara nokkuð vel í samræmda könnunarprófinu í haust og er góður námsmaður, góður bróðir og góður sonur. Duglegur að aðstoða mömmu sína. Við Bjössi ákváðum að skilja í lok árs og verður það okkur sjálfsagt til gæfu þó það taki að sjálfsögðu á. Sumt er bara ekki hægt að sætta sig við. Væntumþykja er á báða bóga og við munum gera okkar besta til að eiga gott foreldrasamband Ásu Hlínar vegna. Ég hef fulla trú á okkur báðum enda sýnir fortíðin að það er vaninn allavega mín megin. Ég er orðin íbúðareigandi aftur. Á nú Bragagötu 16 að fullu og það er ótrúlegur léttir að upplifa öryggið sem því fylgir að eiga í stað þess að leigja. Staðsetningin er frábær og íbúðin passlega stór. Ég "fagnaði" 6 ára starfsafmæli hjá Reykjavíkurborg á árinu og nálgast nú 7 árin - vinnan er fín, ég væri nú alveg til í að takast á við ný verkefni og meira krefjandi starf samt. Því miður er ákveðin stöðnun í gangi í starfinu mínu sem gæti verið mun meira spennandi ef í það væri meira lagt. Framundan er spennandi ár og ég hlakka mikið til að takast á við það. Edinborg, Helsinki og Austin heilla en spurning hvað tekst... |
Höfundurkolbrún hlín. safn
May 2020
flokkar |