Kaflaskil kennsla og ráðgjöf
  • forsíða
  • vefnaður

My Life in Words

Hér birti ég mínar hugsanir (og stundum annarra) 

Sat, Jan 3, 2015

1/3/2015

 

Nú er árið 2015 runnið upp með ótal tækifæri og skemmtilegheit í kortunum. Það gerðist ýmislegt markvert á árinu sem er að líða og mér finnst gaman að líta yfir farinn veg.

Merkilegast var auðvitað fæðing hinnar undursamlegu Ásu Hlínar sem kom á óvart með að fæðast á settum degi 4. maí sl. Það fylgja því auðvitað áskoranir að eignast barn sérstaklega á "gamals" aldri og mikil ábyrgð en gleðin sem hún færir öllum með fallega brosinu sínu er svo mikil og ég hlakka endalaust til að fylgjast með henni vaxa og dafna eins og ég hef notið þess að fylgjast með eldri systkinum hennar.    

Unnur Helga tók sig til og lauk "loksins" stúdentsprófi frá FB þar sem hún lagði áherslu á rýmishönnun og hönnun ýmsa, flutti síðan að heiman í annað sinn og hefur varið tíma sínum austur á Klaustri við störf í Systrakaffi og Skaftárskála. Hún er auðvitað orðin fullorðin þessa elska og ég er endalaust stolt af henni. Hún stefnir reyndar á að flytja aftur í bæinn á árinu og inn til mömmu sinnar í einhvern tíma í það minnsta.

Óðinn Harri hefur haldið áfram að hækka og kyssir mömmu sína á kollinn reglulega (þegar hann lítur upp úr tölvunni), hann er nú á síðasti ári í grunnskóla og fer því í framhaldsskóla næsta haust. Hann vann í Vinnuskóla Reykjavíkurborgar í sumar og voru því báðir foreldrarnir og sonurinn á launaskrá borgarinnar um tíma. Hann ákvað í haust að taka sér frí frá handboltanum sem hann hefur spilað í 7 ár. Hann er ofboðslega efnilegur markmaður og mér finnst það synd en hann á eftir að finna út úr því sjálfur enda hans líf :D   Hann stóð sig bara nokkuð vel í samræmda könnunarprófinu í haust og er góður námsmaður, góður bróðir og góður sonur. Duglegur að aðstoða mömmu sína.

Við Bjössi ákváðum að skilja í lok árs og verður það okkur sjálfsagt til gæfu þó það taki að sjálfsögðu á. Sumt er bara ekki hægt að sætta sig við. Væntumþykja er á báða bóga og við munum gera okkar besta til að eiga gott foreldrasamband Ásu Hlínar vegna. Ég hef fulla trú á okkur báðum enda sýnir fortíðin að það er vaninn allavega mín megin.

Ég er orðin íbúðareigandi aftur. Á nú Bragagötu 16 að fullu og það er ótrúlegur léttir að upplifa öryggið sem því fylgir að eiga í stað þess að leigja. Staðsetningin er frábær og íbúðin passlega stór.

Ég "fagnaði" 6 ára starfsafmæli hjá Reykjavíkurborg á árinu og nálgast nú 7 árin - vinnan er fín, ég væri nú alveg til í að takast á við ný verkefni og meira krefjandi starf samt. Því miður er ákveðin stöðnun í gangi í starfinu mínu sem gæti verið mun meira spennandi ef í það væri meira lagt.

Framundan er spennandi ár og ég hlakka mikið til að takast á við það. Edinborg, Helsinki og Austin heilla en spurning hvað tekst...

Picture
Unnur Helga og Ása Hlín
Picture
Óðinn Harri á leið á ball
Picture
Unnur Helga stúdent
Picture
Nýfædd

Comments are closed.

    Höfundur

    kolbrún hlín.

    safn

    May 2020
    June 2017
    November 2016
    January 2015

    flokkar

    All
    Hamingjuráð

    RSS Feed

copyright 2020

  • forsíða
  • vefnaður